Fullt framundan
5.4.2008 | 20:24
Senn líður að námsferð okkar á leikskólanum mínum. Við fljúgum út til Danmerkur þann 23.4 um morguninn og heim aftur 27.4. Þetta er rosa spennandi en ég verð að segja að mig hlakkar líka til þegar þetta er allt búið. Það er nú þannig að þegar maður er leikskólastjóri og ein af þeim sem skipuleggur svona ferð þá er ansi mikið sem huga þarf að og betra að allt gangi frekar smurt fyrir sig. Námskeiðið sem varð fyrir valinu fjallar um kenningar Howard Gardners. Gardner talar um greind mannsins í fleirtölu, það er að segja að greindirnar geti verið 8 talsins (jafnvel 9) og því sé hver og ein manneskja greind, það er bara misjafnt á hvaða sviði. Það er okkar kennarana að sjá út kosti hvers nemanda og styrkja þá og efla og vinna út frá áhugasviði hvers fyrir sig. Við erum ekki öll góð á bóklegum sviðum en það þýðir ekki samt að við búum ekki yfir hæfileikum á öðrum þáttum. Ég held því miður að það sé ekki algengt að krakkar fái aukakennslu í leikfimi séu þau ílla stödd þar, en aukatímar í stærðfræði, íslensku og öðrum bóklegum fögum gegnir öðru máli. Þessu er ég bara ekki sammála.
En nóg um þetta. Í júní förum við fjölskyldan í brúðkaup í Reykjavík og svo á goslokahátíðina + ættarmót í Vestmanneyjum fyrstu vikuna í júlí. Manninum mínum finnst það ferðalag reyndar of mikið þar sem ég ætla með Herjólfi á fimmtudagskvöldinu og keyri þar með til Þorlákshafnar á fimmtudeginum, kem aftur til baka á mánudagsmorguninn, bruna þá austur og vinn í fjóra daga og fer svo í sumarfrí. Iss, maður verður að hafa gaman af lífinu og stundum þarf bara að leggja eitthvað á sig til að njóta þess í botn.
Eigið góðar stundir
Athugasemdir
Ég segi þá bara: skemmtu þér vel
Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.4.2008 kl. 16:51
Sóley mín ég tilnefni þig fulltrúa minn á ættarmótinu :-) Vonandi færðu gott í sjóinn. Ég fór í fyrsta skipti án hjálparmeðala (sjóveikipilla) í Baldur og dó ekki. Mesta furða. Eða ég held ekki. Hvernig á maður annars að vita hvort maður er lífs eða liðinn?
Mér finnst þessi hugmynd Gardners um fjölgreind gulls ígildi, en það er við ramman reip að draga að fá fólk ofan af því að líta svo á að eina "vitið" sé bókvitið. Það er svo svakalega ríkt í fólki að meta ekki allt hitt sem fólk hefur til brunns að bera.
LKS - hvunndagshetja, 7.4.2008 kl. 17:56
Sammála LKS, sko með neðri hlutann, þ.e. Gardner (og að sjálfsögðu þér líka Sóley) en ekki með efri hlutann...þ.e. hef aldrei þurft á þessum pillum að halda, svo veit ekki hvað sjóveikin er, sem betur fer, sjúkket...
Bjarney Hallgrímsdóttir, 8.4.2008 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.