Best og verst
12.1.2008 | 21:57
Vinafólk mitt hefur þann sið að við kvöldmatarborðið segja allir fjölskyldumeðlimir hvað sé það besta og það versta sem á daginn hefur drifið.
Ég ætla að stela þessari hugmynd og segja ykkur það besta og versta sem ég heyrði síðastliðinn sólarhring.
Byrjum á því versta:
Ein skólasystir mín var að segja mér frá aldraðri móður sinni sem datt á milli jóla og nýjárs og þurfti eftir það í uppskurð vegna lærbeinsbrots. Daginn eftir átti að senda hana aftur á elliheimilið sem hún býr, háaldraða, minnisbilaða og mjög veika eftir aðgerðina. Aðstandendur fengu því framgengt að hún myndi dvelja eitthvað lengur á spítalanum, þar sem elliheimilið, sem er ekki með hjúkrunardeild, var ekki í stakk búið að taka við henni. En til að bregðast við að konugreyið færi sér ekki á voða, þar sem hún er orðin mjög slæm af minnistapi, var ákveðið að notast við svokallaða ÓRÓLEIKAÓL. Ég var ekki alveg viss hvað þessi skólasystir mín átti við þegar þarna var komið í samtalinu og bað hana að útskýra frekar þessa óróleikaól. Jú þannig er mál með vexti að þar sem mikil mannekkla er á spítalanum og ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga eins og þessa konu var hún einfaldlega bundin niður í rúmið svo að hún færi sér ekki á voða. AAAARRRRGGGGGG á hvaða helv..... öld lifum við. Er þetta sem bíður manns ef maður lifir það að verða gamall, minnisveikur og þurfa inn á spítala???????? Nei það er eins og einn gamall maður sagði einu sinni: maður verður að vera mjög hraustur áður en maður leggst inn á spítala.
Það besta:
Einn skólabróðir minn, sem er umsjónarkennari í 5.bekk, deildi með okkur skólasystkinum sínum ansi góðri tilfinningu. En hans upplifun er að börn í dag virðast vera með minni fordóma en áður. Þó að einhver bekkjarfélagi þeirra skeri sig út úr hópnum af einhverjum ástæðum þykir það ekkert tiltökumál. Sérkennsla er litin allt öðrum augum og krakkar eru farnir að sjá að sum börn þurfa meiri örvun en aðrir og það er ekkert tiltökumál. Einnig að börn af erlendu bergi brotin eru orðin ein af hópnum.
Ég er ekki svo barnaleg að halda að öll dýrin í skóginum séu orðnir vinir en þó að um sé að ræða bara lítinn hóp er alltaf gaman að heyra það sem vel gengur.
Athugasemdir
Það versta: Ég á ekki orð en ég skil þetta mjög vel... Við megum borga en ekki kosta krónu. Það er nauðsynlegt að stjórnmálamenn flugi í fyrsta fararími og gamlir séu bundnir fastir...
Það besta: Við erum betur upplýst i dag...
Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.1.2008 kl. 22:05
Ég ætla að útskýra rúmbelti. Ekki eins svakalegt og það hljómar. Sjaldan notuð og þá í neyð. Fólk í ruglástandi eða með mikla heilabilun er sett í þetta til að varna því að það detti. Beltið fer um mitti á fólki og er fest við rúmið. Fólk getur snúið sér í rúminu og sest upp en kmst ekki á fætur. Td. ruglaður einstaklingur sem er mjög órólegur en má ekki stíga í fætur og alls ekki einn man kannske ekki að hann má þetta ekki og fer af stað... Stundum er hægt að hafa yfirsetu en það dugir alls ekki alltaf til. Engin deild er svo vel mönnuð að hafa fólk á lausu til yfirsetu og alls ekki víst að hægt sé að kalla út starfsmann til þess. Önnur leið er að lyfja einstaklinginn verulega , sem mér finnst verrri leið. Ég hef sett fólk í svona belti en þáí samráði við aðstandendur. Það er þá fólk sem er sífellt að detta og brotna og man ekki stundinni lengur að það getur ekki gengið eitt. En þetta er að sjálfsögðu alltaf neyðarúrræði. Vona að þetta veiti smá skilning. Svo þakka ég þér fyrir að benda á söfnunarreikning fjölskyldunnar á Eskifirði, sem er mér mjög skyld
Hólmdís Hjartardóttir, 13.1.2008 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.