Fréttir úr borginni
28.8.2007 | 21:17
Eins og kemur fram í commentum í færslunni hér á undan þá er ég stödd í höfuðborginni. Tilgangur ferðarinnar er að fara í innilotu í skólanum og að fundast yfir stöðu mála hjá foreldrum mínum, með fólki sem annast þau.
Ég á núna t.d. að vera að lesa um megindlegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir en þess í stað þjáist ég af heilmiklum athyglisbresti og því er ég allt í einu stödd í bloggheimum.
Ég hef ekki enn lent í neinum hópslagsmálum eða neitt þessháttar þó að það sé greinilega mjög inn þessa dagana hér á þessum slóðum. Hef reyndar haldið mig í grend við mjög svo þæginlegt fólk sem er seint til einhverja átaka, enda dvalið mest á Hrafnistu, þar sem foreldrar mínir búa.
Í gær skrapp ég í klippingu. Þegar ég og stúlkan sem klippti mig fórum að ræða saman kom í ljós að hún og maðurinn hennar eru að hugsa um að flytja á Eskifjörð og höfðu kvöldið áður verið að skoða aðstæður á netinu og þar á meðal leikskólann. Ég sagði henni að ég væri leikskólastjóri á leikskólanum og ef henni vantaði einhverjar upplýsingar þá bara endilega skyldi hún nota tækifærið og spyrja um allt það sem hún þyrfti að vita. Þegar ég fór var ég nánast búin að lofa henni leikskólaplássi fyrir dóttir sína, talaði óskaplega vel um Álverið (en þar hefur maðurinn hennar hugsað sér að vinna) og taldi henni trú um að alltaf væri þörf á fleirum í hárgreiðslugeiranum fyrir austan. Síðan kvöddumst við með þeim orðum að við sæjumst næst á Eskifirði. Skemmtileg tilviljun. Ætli ég fái einhverja fyrirgreiðslu hjá Fjarðabyggð ef úr rætist og til okkar flytur flott fólk bara afþví að ég fór í klippingu. Hún kostaði sko ekki lítið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.